Gamlir kommmar í felulitum

Kommúnistar reyndust Þýskalandi afar illa. Það voru kommúnistar sem stóðu í því að berja á sósíaldemókrötum –  sem þeir uppnefndu sósíalfasista – á meðan Hitler reis til valda í Þýskalandi. Það voru kommúnistar sem létu af andstöðunni við Hitler á tíma griðasáttmálans við Stalín. Það voru kommúnistar sem stjórnuðu sem leppar Sovétríkjanna í Austur-Þýskalandi í fjörutíu ár allt þangað til að ríki þeirra féll vegna þess að varla neinn gat hugsað sér að viðhalda því lengur.

Þá steig fram Helmut Kohl, einhver merkasti stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar, sameinaði þýsku ríkin tvö og ákvað að höfuðborg þeirra skyldi vera í Berlín. Margir voru mótfallnir þessu. Ekki síst þeir sem voru á vinstri vængnum. En Kohl var rausnarlegur við þá sem bjuggu í austrinu – þar sem allt var í kalda koli. Kostnaðurinn við sameininguna hefur lengi verið baggi á þýska ríkinu – en öðruvísi átti það ekki að vera.

Leifarnar af kommunum í austri hafa lífað áfram í flokkum eins og PDS (hét SED á tíma alþýðulýðveldisins) og síðar í Die Linkspartie. Á morgun sameinast flokkurinn vinstri samtökum frá Vestur–Þýskalandi sem nefnast WASG og úr verður flokkurinn Die Linke. Kannski á hann talsverða möguleika meðan tveir stærstu flokkar landsins, Kristilegir demókratar og Sósíaldemókratar eru saman í stórri samsteypu – ekki ósvipað og á Íslandi.

En flokkurinn er ekki sérlega traustvekjandi. Hlynur Hallsson á Íslandi fjallar um tilurð hans á bloggi sínu og fagnar. En tengsl flokksins og fortíð í gamla Austur-Þýskalandi verða ekki falin, nostalgían eftir gamla sovétinu og samúð með Kastró, Chavez og Norður-Kóreu. Upp til hópa eru þetta gamlir kommar að leita sér að framhaldslífi með því að blanda sér í baráttuna fyrir náttúruvernd og femínisma, gegn Bandaríkjunum og hnattvæðingu.

Ég er nánast staddur þar sem Múrinn stóð eitt sinn, bara svona fimmtíu metra hér frá var einskismannsland vaktað með byssumönnum, ljóskösturum og hundum. Það voru ekki ráðamenn í vestrinu sem stóðu fyrir þessu – heldur ofbeldis- og kúgunaröflin í austri. Á sínum tíma ferðaðist ég heilmikið um gömlu Austur-Evrópu, sá þetta með eigin augum.  Eftir það getur maður ekki haft annað en skömm á þessu liði.

Eða eins og annar merkur stjórnmálamaður, Winston Churchill sagði:

"Indeed, it has been said that democracy is the worst form of Government except all those other forms that have been tried from time to time."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband