Færsluflokkur: Bloggar
7.6.2007 | 23:01
Hættir Steingrímur?
Þingmenn sem ég hitti á röltinu í góða veðrinu í bænum í dag voru flestir á því að tími Steingríms J. Sigfússonar í pólitíkinni væri að líða. Hann virkar þreyttur og argur. Það voru mikil vonbrigði að komast ekki í ríkisstjórn. Hans bíður fjögurra ára hark í afar sundurleitri stjórnarandstöðu. Þingræður hans þessa dagana virðast aðallega beinast að Össuri Skarphéðinssyni fremur en til dæmis kjósendum.
Vandinn er sá að Steingrímur hefur ekki alið upp neinn arftaka. Ögmundur kemur auðvitað til greina en það er ekki víst að hann hafi áhuga. Steingrímur kærir sig heldur ekki um að Ögmundur taki við. Þá beinast sjónir manna helst að ungu konunum í flokknum.
Katrín Jakobsdóttir er varaformaður en skortir kannski einhvern myndugleika. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur myndugleikann en flokkseigendafélagið í VG fór afar illa með hana í kosningunum, setti hana í nánast vonlaust sæti í Kraganum, meðan Álfheiður Ingadóttir og Árni Þór Sigurðsson fengu þægileg sæti á framboðslistum í Reykjavík. Lilja virðist ekki erfa þetta við flokksfélaga sína eða hvað?
Svo er spurning hvað Steingrímur á að gera. Varla verður búin til sendiherrastaða fyrir hann?
7.6.2007 | 22:55
Barbararnir við hliðin
Við Hólatorg var einstaklega fallegur gamall múrveggur, vaxinn mosa, hafði karakter sem setti svip á þessa götu sem eins og felst í nafninu er næstum eins og torg. Nú eru eyðileggingaröflin búin að brjóta þennan múrvegg. Það hafa verið gerð hræðilega ljót göt í hann til að koma jeppum inn í bílastæði sem hafa verið sett upp þar sem áður voru fallegir garðar fyrir framan húsin. Þetta eru hrein skemmdarverk. Maður hefði haldið að mannvirki eins og þessi veggur ætti að njóta einhverrar verndar.
Eyðileggingaröflin hafa líka verið á ferð niður í Suðurgötu. Þar framan við lítið hús sem stendur gegnt Vonarstræti var einn fallegasti garður á Íslandi. Margverðlaunaður. Ég held að Helgi Hjörvar útvarpsmaður eða kona hans hafi fyrst ræktað þennan garð, síðar tók við Brian Holt ræðismaður Breta.
Nú er búið að breyta þessum garði í bílastæði. Hann hefur mestanpart verið sléttaður út og settur í staðinn hvítur skeljasandur. Á honum hvílir svo jeppinn, tákn hins nýríka Íslendings.
Fólk af því tagi hefur verið að kaupa upp stóru húsin í Vesturbænum. Mamma býr þarna ennþá, vitlausu megin við Ásvallagötuna, en hinum megin götunnar er fólk úr Kaupþingi búið að eignast allt.
7.6.2007 | 17:48
Gætið að...
Ég verð ekki sérlega virkur hér á bloggvefnum. Mun ekki keppa um að vera á topp tíu í flettingum. Opnaði þessa síðu hálfpartinn í rælni í morgun þegar ég var vaknaður fyrir allar aldir. Ágætt að hafa vettvang ef manni dettur eitthvað í hug. Maður þarf helst að skrifa eitthvað svo heilabúið í manni tréni ekki alveg.
Annars er ég að fara í frí til útlanda á morgun, fyrst til Lundúna þar sem konan mín er við nám, vonast til að fara með Kára í Legoland sem er rétt hjá Windsor, kannski til Stonehenge samt ekki þegar nýaldarliðið er þar um Jónsmessuna svo til Berlínar af því við fundum svo fáránlega ódýrt far þangað og þaðan til Grikklands. Mig langar líka til Tyrklands.
Veit ekki alveg hvað þessi túr verður langur, ræðst kannski sumpart af því hvernig ákveðin mál þróast. En ég verð sko ekki beinlínis leiður að komast burt frá því argaþrasi.
En kærar þakkir fyrir hlýjar kveðjur sem mér hafa borist frá bloggurum og svo líka þeim sem bjóðast til að vera bloggvinir mínir ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki alveg búinn að fatta það sýstem.
Annars hafa síðustu dagar verið lærdómsríkir. Ég hef meðal annars lært hversu miklu máli spuni virðist skipta í nútímasamfélagi að senda út eitthvað sem menn þurfa síðan að neita baki brotnu, að endurtaka ósannindi þannig að þau virðist smátt og smátt vera sannleikurinn. Meira um það seinna.
En ég held samt að það sem ég hef staðið í síðustu dagana sé góðkynjað vandamál gæðavandamál kallaði einn vinur minn það í dag.
7.6.2007 | 06:48