Einkavæddar lestir og heilbrigðiskerfi

Lestirnar í ríki Blairs og Brown eru hörmulegar. Áðan var ég í lest þar sem loftræstikerfið lak vatni í stríðum straumum, fólkið varð blautt og líka ferðatöskurnar. Í lestarvagninum var afskiptasöm kona sem kvartaði sáran undan þessu. Hélt því fram að við myndum öll fá hermannaveiki. Talaði um dauðann í því sambandi og langa vist á gjörgæslu. Það var farið að fara um mann. 

Konan vildi helst að allir farþegarnir skrifuðu nöfn sín á lista. Við gætum þá reynt að sækja rétt okkar gagnvart lestarfyrirtækinu þegar við tækjum að deyja eitt af öðru.

Nú er ég á Stansted flugvelli á leið til Berlínar. Verð þar fram á laugardag og bíð eftir sjúkdómseinkennunum. 

Í lestinni las ég grein um bandaríska heilbrigðiskerfið. Ég segi ekki að ég hlakki til að sjá Sicko, myndina hans Michaels Moore, en það verður ábyggilega lærdómsríkt. 

Í myndinni kemur víst fram að NHS, breska heilbrigðiskerfið, sé eins og himnaríki miðað við það bandaríska. Þegar við vorum í London hélt ég eitt sinn að Kári væri orðinn alvarlega veikur, jafnvel með heilahimnubólgu. Ég hringdi í hjálparlínu NHS. Kona á hinum endanum yfirheyrði mig langa stund um hvers vegna ég væri að hringja og hvernig stæði á veru minni í Bretlandi. Svo sagðist hún myndu hringja aftur í mig og segja mér hvert ég ætti að fara með drenginn.

Hún hringdi aldrei.

Konan mín fór í apótek, var heldur óttaslegin að sjá, og sagði eiganda apóteksins frá raunum sínum. Þar var að vinna ungur maður. Það kom á daginn að hann var læknismenntaður, frá Úkraínu, en fékk ekki að starfa við lækningar í Bretlandi. Hann kom með okkur heim í íbúðina, úrskurðaði að allt væri í lagi með Kára.

Vildi ekki taka neina þóknun fyrir.

Í samanburði má geta þess að í Frakklandi eru reglur um að sá sem hringir í SOS-Médecins, símaþjónustu heilbrigðiskerfisins, skuli njóta læknisþjónustu innan klukkutíma. Þetta höfum við reynt í Frakklandi. Þar hafa bæði kona mín og sonur veikst á hótelherbergjum og læknar hafa komið að vörmu spori.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband