15.6.2007 | 09:51
Staða ljóðsins
Þröstur Helgason skrifaði bloggfærslu um daginn. Hafði farið á ljóðakvöld í Stúdentakjallaranum. Gekk út og hugsaði:
"Þetta er kannski um það bil að verða búið."
Það er að segja ljóðið.
Ég hef áður sagt að ég hafi ofnæmi fyrir orðinu ljóð. Jón Helgason sem var frændi minn talaði alltaf um kvæði.
Ljóð er væmið. Einn gallinn við ljóðaheiminn er hvað hann er væminn.
Hinn gallinn er að hérumbil enginn nennir að lesa ljóð lengur, allavega ekki þau ljóð sem eru samin núna.
Þröstur sagði í blogginu sínu að kvæðin á ljóðakvöldinu hefðu verið "flest fremur óáhugaverð, svolítið bernsk, full af óþekkt, klámi og blótsyrðum".
Annar maður sem hefur nýskeð tjáð sig um stöðu ljóðsins er Martin Amis. Hann sagði á bókmenntahátíðinni í Hay í Wales um daginn:
"You may have noticed that poetry is dead. The obituary has already been written. It has a ghoulish afterlife in readings and poetry slams ... not many people curl up of an evening with a book of poetry ... do we like these moments of communion with the poet? Reading a poem involves self-examination ... we don't have the time or the inclination."
En talandi um ljóð og Stúdentakjallararann. Í kringum 1980 var þar haldið ljóðakvöld með Einurunum og fleiri góðskáldum. Á samkomunni sömdum við Hrafn Þorgeirsson vinur minn kvæði á servéttu sem ég las síðan upp.
Ljóðið týndist strax þá um kvöldið. Ég hef aldrei munað staf úr úr því og ekki Hrafn heldur.
En mér er sagt af þeim sem hlýddu á að þetta sé besta nútímakvæði sem hefur verið samið á íslensku.
(Eða þannig.)