15.6.2007 | 22:09
Sorgleg örlög ríkasta manns heims
Ég les í blaði að bankamaðurinn Guy de Rothschild sé dáinn, 98 ára að aldri. Eitt sinn var hann glaumgosi og lífsnautnamaður, fastagestur á síðum Paris Match, en hann hafði lifað gegnum margt. Hann var eitt höfuð mikils bankaveldis, en nasistar hröktu hann frá Frakklandi í byrjun stríðsins. Rothschild var gyðingur eins og ættmenni hans.
Síðar þjóðnýtti sósíalistastjórn Mitterrands, sem þá hafði kommúnista innanborðs, Rothschild-bankann. Þá flutti hann í annað sinn til Bandaríkjanna. Birti áður fræga grein í Le Monde þar sem hann sakaði frönsku stjórnina um að vilja gera gyðingahöturum til geðs.
En ég ætlaði ekki að skrifa um þennan Rothschild, heldur ættmenni hans, Nathan Mayer Rothschild, sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar. Í hinni frábæru bók The Wealth and Poverty of Nations skrifar hagsögufræðingurinn David Landes um örlög Nathans. Hann var einn ríkasti og voldugasti maður samtíma síns. Kóngar fengu lánaða peninga hjá honum, óttuðust hann. Eitt sinn var hann sagður hafa bjargað sjálfum Englandsbanka frá hruni.
Nathan þótti mjög framfarasinnaður, var útvörður upplýsingasamfélagsins. Það er sagt að hann hafi notað bréfdúfur til að fljúga með fréttir yfir Ermasund þannig græddi hann fé á því að vita úrslit orrustunnar við Waterloo á undan öðru fólki.
Nathan dó 1836, 59 ára að aldri. Fyrst fékk hann bólu á bakið, svo breyttist hún í kýli mánuði síðar andaðist hann með miklum harmkvælum úr blóðeitrun.
Hann var kannski ríkasti maður í heimi. Núorðið hefðu sýklalyf sem kosta nokkur hundruð krónur út úr apóteki auðveldlega getað bjargað lífi hans.