Barbararnir við hliðin

Við Hólatorg var einstaklega fallegur gamall múrveggur, vaxinn mosa, hafði karakter sem setti svip á þessa götu sem eins og felst í nafninu er næstum eins og torg. Nú eru eyðileggingaröflin búin að brjóta þennan múrvegg. Það hafa verið gerð hræðilega ljót göt í hann til að koma jeppum inn í bílastæði sem hafa verið sett upp þar sem áður voru fallegir garðar fyrir framan húsin. Þetta eru hrein skemmdarverk. Maður hefði haldið að mannvirki eins og þessi veggur ætti að njóta einhverrar verndar.

Eyðileggingaröflin hafa líka verið á ferð niður í Suðurgötu. Þar framan við lítið hús sem stendur gegnt Vonarstræti var einn fallegasti garður á Íslandi. Margverðlaunaður. Ég held að Helgi Hjörvar útvarpsmaður eða kona hans hafi fyrst ræktað þennan garð, síðar tók við Brian Holt ræðismaður Breta.

Nú er búið að breyta þessum garði í bílastæði. Hann hefur mestanpart verið sléttaður út og settur í staðinn hvítur skeljasandur. Á honum hvílir svo jeppinn, tákn hins nýríka Íslendings. 

Fólk af því tagi hefur verið að kaupa upp stóru húsin í Vesturbænum. Mamma býr þarna ennþá, vitlausu megin við Ásvallagötuna, en hinum megin götunnar er fólk úr Kaupþingi búið að eignast allt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband