13.6.2007 | 11:21
Stefnubreyting?
Á að vera nokkuð mál fyrir ríkisstjórnina að taka upp nýja afstöðu til Bandaríkjanna, Palestínumálsins, Íraks og alls þessa? Er ekki herinn farinn? Var ekki brottförin með þeim hætti að ekki er hægt að kalla það annað en dónaskap. Þurfum við að hanga lengur í rassinum á Bandaríkjamönnum? Eru ekki allir sammála um það nema örfáir íslenskir repúblikanar að Bush er hættulegur idjót?
Þeir einu sem fagna honum núorðið eru stóreinkennilegir ráðamenn í Austur Evrópu, menn á borð við Kaczynski bræðurna.
Varðandi Palestínumálið þá þarf lausn þess ekki að vera svo fólkin, líkt og hið hægrisinnaða tímarit Economist benti á í afar góðum leiðara um daginn. Þá voru liðin fjörutíu ár frá lokum sex daga stríðsins 1967. Ísraelsmenn unnu þar frægan sigur, en hann var ekki til neins nema bölvunar. Öldungurinn Ben Gurion hafði rétt fyrir sér þegar hann flaug í þyrlu yfir herteknu svæðin nokkrum dögum eftir stríðið og sagði að þessu yrðu Ísraelar að skila aftur annars myndi það éta ríkið að innan.
Draumurinn um Stór-Ísrael varð að raunveruleika í sex daga stríðinu. Þá náðu gyðingar undir sig biblíuslóðunum í Júdeu og Samaríu, það sem í daglegu tali kallast Vesturbakkinn. Þeir lögu líka undir sig Austur-Jerúsalem sem var byggð Palestínumönnum og hafa síðan verið í óða önn að innlima hana í ríkið.
Lausnin er fólgin í því að Ísraelar skili aftur herteknu svæðunum á Vesturbakkanum, leggi niður landnemabyggðirnar þar, og að Jerúsalem verði opin borg þar sem allar þjóðir og trúarbrögð hafa rétt. Á móti viðurkenna Palestínumenn tilvist Ísraelsríkis skilyrðislaust og falla frá kröfum um að palestínskir flóttamenn fái að snúa aftur.