Fjölmiðlar eins og villt dýr

Tony Blair hélt merkilega ræðu í fyrradag. Þar fjallaði hann vítt og breitt um fjölmiðla á Bretlandi – mál sem hefur greinilega hvílt þungt á honum. Forsætisráðherrann fráfarandi líkti þeim við villt dýr. Sagði að fyrir þeim vakti ekki að skýra rétt frá heldur að skapa sem mestan usla. Láta finna fyrir sér.

Hann talaði sérstaklega um að mörkin milli frétta og túlkana á þeim yrðu sífellt óskýrari og nefndi dagblaðið The Independent í því sambandi.

Margt í ræðu Blairs er ábyggilega satt og rétt. Hann hefur augljóslega pælt mikið í þessu. Gæti kannski orðið fjölmiðlarýnir eftir að hann lætur af embætti. Margir fjölmiðlar eru fullir af vandlætingu yfir ræðunni. Ég sá að pólitískur ritstjóri The Sun sagði að hún væri "dapurleg".

Honum ferst.

En Blair ferst líka. Það voru hann og New Labour sem færðu pólitískan spuna upp í nýjar hæðir svo það er að verða heilt fag út af fyrir sig að afrugla það sem stjórnmálamenn segja. Það var líka Blair sem gerði samning við skrattann þegar hann fékk fjölmiðlakónginn Murdoch til að styðja sig. Og það var Blair sem fór í stríð við Írak á vægast sagt vafasömum forsendum.

En það breytir því ekki að stór hluti af bresku pressunni er sorp. Sjálfumglatt, skinheilagt og sjálfhverft sorp. Sjónvarpsstöð á borð við Sky (í eigu Murdochs) er það líka – mestanpart. En Bretar eiga líka suma af bestu fjölmiðlum í heimi. The Guardian. The Daily Telegraph. The Spectator. BBC.

Annars hef ég alltaf verið pínu veikur fyrir Tony Blair. Er það enn. Bretland hefur gengið í gegnum dæmalaust velmegunarskeið á tíma hans.

(Sem reyndar er flóknara en það sýnist. Í gær las ég grein þar sem var staðhæft að dulið atvinnuleysi í Bretlandi væri svo mikið að atvinnuleysistölur gætu jafnvel verið þrefalt hærri en þær eru opinberlega. Þetta skýrist meðal annars af mikilli fjölgun fólks á örorkubótum.)

En brátt getur Blair sagt eins og Richard Nixon í eitt skiptið sem hann hætti í stjórnmálum (en kom svo aftur):  

"You won´t have Nixon to kick around anymore, because, gentlemen, this is my last press conference." 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband