Hressandi anarkismi

Þegar ég er í Berlín fer ég hérumbil aldrei í vesturhluta borgarinnar, gömlu Vestur-Berlín. Þar er voða lítið að sækja. Kürfurstendamm er eins og hvaða verslunargata í evrópskri borg, með hávaða sínum og stressi. Austrið er öðruvísi. Unter den Linden og Friedrichstrasse, helstu göturnar í austurhlutanum eru furðulega rólegar. Þær eru enn ekki ofurseldar skruminu og látunum sem einkenna götur eins og Oxford Street og Champs Elysées. 

Best er þó að fara á Prenslauer Berg og í efri hluta hverfisins sem nefnist Mitte. Þar ríkir afar bóhemískt andrúmsloft og jú – maður hefur á tilfinningunni að lífið þar sé nokkuð langt til vinstri. En einkaframtakið blómstar þar ómengað. Þarna er fullt af litlum skrítnum stöðum. Verðlagið er fáránlega lágt fyrir Íslending. Og það sem best er, hvergi bólar á Starbuck´s, McDonald´s eða öðrum táknmyndum alþjóðavædds kapítalisma. Þessum fyrirtækjum yrði sjálfsagt ekki fagnað þarna – líklega yrði krotað á framhliðar þeirra og svo væru rúðurnar brotnar á nóttinni.

En það er allt í lagi. Þessir auðhringir geta athafnað sig í borgum eins og London þar sem eru varla til kaffihús lengur nema það séu Starbuck´s. Ég hef þá kenningu að maður geti farið milljón sinnum á Starbuck's án þess að starfsfólkið heilsi manni.

Ég sagði að Prenslauer Berg og Mitte væru til vinstri. En þetta er líka blandið anarkisma og það er hressandi. Honecker og félagar vildu flæma fólk burt úr þessum hverfum og láta það setjast að í nýjum íbúðablokkum. Nasistunum tókst heldur ekki alveg að kveða niður bóhemalífið í Mitte.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband