18.6.2007 | 08:55
Folegandros
Nú er það litla eyjan Folegandros. Verðum þar allavega viku. Í fyrra var hægt að komast í tölvusamband á tveimur stöðum á eyjunni. Á báðum stöðum var netið löturhægt. Jú, og skrítinn karl sem rekur veitingahús á aðaltorginu lánar manni stundum fartölvu. En hann vill helst horfa yfir öxlina á manni meðan maður notar hana.
Það er heitt í dag. Meira en 35 stig. Varla hægt að vera í Aþenu. Verður gott að komast út á eyjarnar þar sem vindurinn blæs yfirleitt. Folegandros er reyndar mjög vindasöm og sumrin þar fremur stutt. Við höfum verið þar í september og þá var skítkalt á kvöldin.
En þetta er frábær staður og afar rólegur.
Góðkunningi minn Paolo Turchi sagðist ætla til Folegandros í júní. Kannski hittum við hann.
17.6.2007 | 21:12
Píanósnillingur undir berum himni
Píanistinn Aldo Cicciolini er fæddur 1925. Hann er áttatíu og eins árs. Áðan hélt hann stórkostlega tónleika í Heródesarleikhúsinu hér í Aþenu. Leikhúsið er líka gamalt. Það er frá fyrstu öld eftir Krist. Það er undir berum himni. Fuglar flögra um fyrir ofan sviðið, maður horfir upp í stjörnurnar. Akropolishæð er rétt fyrir ofan.
Það hefur löngum verið vitað að píanistar geta orðið hundgamlir án þess að þeim förlist í list sinni. Fræg dæmi eru Rubenstein, Horowitz og Claudio Arrau. Ég sá Shura Cherkassy halda einleikstónleika í Háskólabíói stuttu áður en hann lést, hann hefur líklega verið áttatíu og þriggja þegar hann lék á tónleikunum.
Aldo Cicciolini, sem er af ítölsku bergi brotinn en hefur búið í Frakklandi, olli ekki vonbrigðum. Manni virtist hann svo hrumur að hann gæti varla staulast upp á sviðið. En þegar hann settist við píanóið lék hann eins og meistari. Ekki of hratt, það var eins og hver nóta fengi að njóta sín.
Þetta voru stórkostlegir tónleikar. Fyrst lék hann fjórða píanókonsert Beethovens með sinfóníuhljómsveit Þessalóníkiborgar, svo var hann klappaður upp tvívegis og lék þá stutt einleiksverk, annað eftir Chopin en hitt var verk sem ég kem ekki fyrir mig þótt ég þekki melódíuna gæti það verið eftir La Falla? Altént var það í spænskum stíl.
Ég vil reyna að muna það. Var betri í þessu á árunum þegar Kontrapunktur var í sjónvarpinu.
17.6.2007 | 20:54
Móðursýki
Það er náttúrlega tóm móðursýki að halda að Ísland hafi verið tekið yfir af álfyrirtækjum. Get a life segir maður við fólk sem heldur svoleiðis fram.
En það er líka móðursýki að handtaka fólk sem stendur fyrir friðsamlegum mótmælum vegna þess að það hafi brotið lög um meðferð íslenska fánans. Sýnir manni bara að topparnir í lögregluliðinu heima hafa vonda dómgreind.
http://www.visir.is/article/20070617/FRETTIR01/70617058
17.6.2007 | 15:41
Vinstri eða grænir?
Vinstri grænir senda fulltrúa á fund stjórnmálaflokksins Die Linke í Þýskalandi. Það er alveg örugglega til vinstri.
Í Þýskalandi hefur stjórnmálaflokkurinn Die Grünen lengst af staðið fyrir umhverfissjónarmiðum. Þeir eru grænir. Algjörir frumkvöðlar á því sviði.
Græn viðhorf áttu hins vegar ekki upp á pallborðið í gamla Austur-Þýskalandi en Die Linke eru að stórum hluta upprunnir þaðan.
Hvort eru VG-arar meira vinstri eða grænir?
17.6.2007 | 08:37
Morgunn í Grikklandi
Þegar við vöknuðum í morgun á litla hótelinu þar sem við gistum í Aþenu barst fuglasöngur inn um svalahurðina.
"Mér finnst gott að heyra þetta hljóð," sagði Kári.
Við förum á morgun til smáeyjunnar Folegandros. Þar verðum við í þorpi sem stendur efst uppi á kletti. Kári er spenntur fyrir þessum stað. Hann þekkir krakkana þar. Húsin er lítil og hvítkölkuð, börnin geta hlaupið um frjáls. Það eru engir bílar inni í þorpinu.
Að fenginni reynslu er mjög lélegt netsamband þarna. Eiginlega gleymir maður bara umheiminum.
16.6.2007 | 21:43
Sautjándi júní
Sautjándi júní er ekki spennandi dagur. Því miður. Það væri hægt að hafa hann fínan. Það er komið sumar, við getum glaðst yfir því að vera sjálfstæð og stöndug þjóð. Sólin er hæst á lofti. En skemmtanahald dagsins er frekar leiðinlegt. Það er skipulagt af kontóristum hjá borginni, ekkert er sjálfsprottið, upprunalegt, komið frá fólkinu sjálfu. Það vafrar bara um.
Það eru engar almennilegar hefðir sem tengjast sautjánda júní, ekki í mat og drykk, skemmtanahaldi, tónlistarflutningi, dansi eða fatnaði. Fólk er meira að segja hætt að klæða sig í spariföt á sautjánda júní, það fer bara í flíspeysurnar. Eru ekki peysufatakonur alveg horfnar?
Það liggur við að ræða forsætisráðherra sé skásti hluti dagsins. Hún er haldin um morguninn og svo er lagður blómsveigur við styttu Jóns Sigurðssonar.
Ég er að hugsa um að gerast málari og mála myndaflokk úr sögu þjóðarinnar. Þetta verður í sósíalrealískum stíl. Fyrsta myndin á að bera titilinn:
Jón Sigurðsson lokaður inni í dönsku fangelsi.
16.6.2007 | 21:24
Er hægt að kalla þetta stefnu?
Íslendingar vilja að sem flestir ferðamenn komi til landsins. En þeir vilja ekki byggja vegi svo þeir komist um það.
http://www.visir.is/article/20070616/FRETTIR01/70616064
Og þeir vilja hafa skálana á hálendinu ljóta, draslaralega og fráhrindandi. Helst á fjöldi fólks að sofa í einni kös.
Er ekki einhver mótsögn í þessu?
16.6.2007 | 07:30
Þjóðverjar vilja ekki bíla
Ein hættan í hnattvæddu samfélagi er að ríka fólkið geti komið öllum peningunum sínum undan skatti, en eftir sitji launþegar með byrðarnar Der Spiegel fjallaði um þetta í forsíðugrein í vetur og sagði að hugsanlega þyrftu launamenn að halda uppi öllu sýsteminu meðan peningafólkið færir aurana sína milli landa.
Bæði í Frakklandi og Þýskalandi þar sem nú sitja ríkisstjórnir sem hallast til hægri er tilhneigingin sú að hækka neysluskatta. Virðisaukaskattur hefur verið hækkaður í 19 prósent í Þýskalandi og í Frakklandi verður skatturinn líklega hækkaður í 24,6 prósent. Á móti ætlar Sarkozy að létta skattbyrði af fyrirtækjum.
Í Þýskalandi er mikill uppgangur í efnahagslífinu eftir langa stöðnun. En Þjóðverjar hafa verið að breytast. Þrátt fyrir velmegunina er engin leið að selja þeim bíla. Jú, þeir hafa á orð sér fyrir að framleiða og aka hraðskreiðum bílum, en núorðið vilja þeir hjóla eða ferðast með almenningssamgöngum. Bílasalar segja að það sé engin leið að stækka markaðinn það sé einungis hægt að selja þeim bíla sem eiga þá fyrir.
16.6.2007 | 07:09
Museveni
Nú fer að ljúka sæludögum hér á Hótel Adlon í Berlín. Ætli verði ekki vatn og brauð restina af sumrinu? Fengum gistinguna hér reyndar á furðu góðu verði. En þetta er fínt, því verður ekki neitað.
Nokkur viðbúnaður var hér í gærkvöldi. Mikið af ábúðarfullum blökkumönnum á þönum. Ég spurði og var sagt að Museveni forseti Úganda væri á hótelinu. Stuttu síðar sáum við hann storma í gegnum lobbíið með miklu föruneyti.
Maður veit svosem ekki hvað maður á að halda um þennan mann. Hann virðist hafa byrjað vel, var hampað á Vesturlöndum, en svo hafa einræðistilburðirnir ágerst eins og títt er um Afríkuleiðtoga. Norðmenn ákváðu til dæmis að skera niður aðstoð til Úganda vegna þessa.
Það skiptir kannski ekki máli. Eftir því sem maður les eru Kínverjar að leggja undir sig Afríku. Þeir eru sagðir sjá tækifæri þar sem Vesturlandabúar sjá eintóm vandamál.
Við förum héðan frá Berlín seinna í dag. Fyrst ætla ég að reyna að fara í eitt uppáhaldssafn mitt, Deutsches Historisches Museum, en hluti af því er hannaður af arkitektinum I. M. Pei, þeim hinum sama og teiknaði píramíðann í Louvre.
Við Kári eigum líka miða í sædýrasafn hér en þar er mér sagt að maður fari í lyftu í gegnum tank sem inniheldur hitabeltisfiska og milljón tonn af vatni.
Vona að við höfum tíma til að komast þangað. Við fljúgum til Aþenu síðdegis. Eftir því sem ég hef heyrt eru eyjarnar okkar að verða alltof vinsælar.
15.6.2007 | 22:09
Sorgleg örlög ríkasta manns heims
Ég les í blaði að bankamaðurinn Guy de Rothschild sé dáinn, 98 ára að aldri. Eitt sinn var hann glaumgosi og lífsnautnamaður, fastagestur á síðum Paris Match, en hann hafði lifað gegnum margt. Hann var eitt höfuð mikils bankaveldis, en nasistar hröktu hann frá Frakklandi í byrjun stríðsins. Rothschild var gyðingur eins og ættmenni hans.
Síðar þjóðnýtti sósíalistastjórn Mitterrands, sem þá hafði kommúnista innanborðs, Rothschild-bankann. Þá flutti hann í annað sinn til Bandaríkjanna. Birti áður fræga grein í Le Monde þar sem hann sakaði frönsku stjórnina um að vilja gera gyðingahöturum til geðs.
En ég ætlaði ekki að skrifa um þennan Rothschild, heldur ættmenni hans, Nathan Mayer Rothschild, sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar. Í hinni frábæru bók The Wealth and Poverty of Nations skrifar hagsögufræðingurinn David Landes um örlög Nathans. Hann var einn ríkasti og voldugasti maður samtíma síns. Kóngar fengu lánaða peninga hjá honum, óttuðust hann. Eitt sinn var hann sagður hafa bjargað sjálfum Englandsbanka frá hruni.
Nathan þótti mjög framfarasinnaður, var útvörður upplýsingasamfélagsins. Það er sagt að hann hafi notað bréfdúfur til að fljúga með fréttir yfir Ermasund þannig græddi hann fé á því að vita úrslit orrustunnar við Waterloo á undan öðru fólki.
Nathan dó 1836, 59 ára að aldri. Fyrst fékk hann bólu á bakið, svo breyttist hún í kýli mánuði síðar andaðist hann með miklum harmkvælum úr blóðeitrun.
Hann var kannski ríkasti maður í heimi. Núorðið hefðu sýklalyf sem kosta nokkur hundruð krónur út úr apóteki auðveldlega getað bjargað lífi hans.