Gamlir kommmar í felulitum

Kommúnistar reyndust Þýskalandi afar illa. Það voru kommúnistar sem stóðu í því að berja á sósíaldemókrötum –  sem þeir uppnefndu sósíalfasista – á meðan Hitler reis til valda í Þýskalandi. Það voru kommúnistar sem létu af andstöðunni við Hitler á tíma griðasáttmálans við Stalín. Það voru kommúnistar sem stjórnuðu sem leppar Sovétríkjanna í Austur-Þýskalandi í fjörutíu ár allt þangað til að ríki þeirra féll vegna þess að varla neinn gat hugsað sér að viðhalda því lengur.

Þá steig fram Helmut Kohl, einhver merkasti stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar, sameinaði þýsku ríkin tvö og ákvað að höfuðborg þeirra skyldi vera í Berlín. Margir voru mótfallnir þessu. Ekki síst þeir sem voru á vinstri vængnum. En Kohl var rausnarlegur við þá sem bjuggu í austrinu – þar sem allt var í kalda koli. Kostnaðurinn við sameininguna hefur lengi verið baggi á þýska ríkinu – en öðruvísi átti það ekki að vera.

Leifarnar af kommunum í austri hafa lífað áfram í flokkum eins og PDS (hét SED á tíma alþýðulýðveldisins) og síðar í Die Linkspartie. Á morgun sameinast flokkurinn vinstri samtökum frá Vestur–Þýskalandi sem nefnast WASG og úr verður flokkurinn Die Linke. Kannski á hann talsverða möguleika meðan tveir stærstu flokkar landsins, Kristilegir demókratar og Sósíaldemókratar eru saman í stórri samsteypu – ekki ósvipað og á Íslandi.

En flokkurinn er ekki sérlega traustvekjandi. Hlynur Hallsson á Íslandi fjallar um tilurð hans á bloggi sínu og fagnar. En tengsl flokksins og fortíð í gamla Austur-Þýskalandi verða ekki falin, nostalgían eftir gamla sovétinu og samúð með Kastró, Chavez og Norður-Kóreu. Upp til hópa eru þetta gamlir kommar að leita sér að framhaldslífi með því að blanda sér í baráttuna fyrir náttúruvernd og femínisma, gegn Bandaríkjunum og hnattvæðingu.

Ég er nánast staddur þar sem Múrinn stóð eitt sinn, bara svona fimmtíu metra hér frá var einskismannsland vaktað með byssumönnum, ljóskösturum og hundum. Það voru ekki ráðamenn í vestrinu sem stóðu fyrir þessu – heldur ofbeldis- og kúgunaröflin í austri. Á sínum tíma ferðaðist ég heilmikið um gömlu Austur-Evrópu, sá þetta með eigin augum.  Eftir það getur maður ekki haft annað en skömm á þessu liði.

Eða eins og annar merkur stjórnmálamaður, Winston Churchill sagði:

"Indeed, it has been said that democracy is the worst form of Government except all those other forms that have been tried from time to time."


Staða ljóðsins

Þröstur Helgason skrifaði bloggfærslu um daginn. Hafði farið á ljóðakvöld í Stúdentakjallaranum. Gekk út og hugsaði:

"Þetta er kannski um það bil að verða búið."

Það er að segja ljóðið.  

Ég hef áður sagt að ég hafi ofnæmi fyrir orðinu ljóð. Jón Helgason sem var frændi minn talaði alltaf um kvæði.

Ljóð er væmið. Einn gallinn við ljóðaheiminn er hvað hann er væminn.

Hinn gallinn er að hérumbil enginn nennir að lesa ljóð lengur, allavega ekki þau ljóð sem eru samin núna. 

Þröstur sagði í blogginu sínu að kvæðin á ljóðakvöldinu hefðu verið "flest fremur óáhugaverð, svolítið bernsk, full af óþekkt, klámi og blótsyrðum".

Annar maður sem hefur nýskeð tjáð sig um stöðu ljóðsins er Martin Amis. Hann sagði á bókmenntahátíðinni í Hay í Wales um daginn:

"You may have noticed that poetry is dead. The obituary has already been written. It has a ghoulish afterlife in readings and poetry slams ... not many people curl up of an evening with a book of poetry ... do we like these moments of communion with the poet? Reading a poem involves self-examination ... we don't have the time or the inclination." 

En talandi um ljóð og Stúdentakjallararann. Í kringum 1980 var þar haldið ljóðakvöld með Einurunum og fleiri góðskáldum. Á samkomunni sömdum við Hrafn Þorgeirsson vinur minn kvæði á servéttu sem ég las síðan upp. 

Ljóðið týndist strax þá um kvöldið. Ég hef aldrei munað staf úr úr því og ekki Hrafn heldur.

En mér er sagt af þeim sem hlýddu á að þetta sé besta nútímakvæði sem hefur verið samið á íslensku.

(Eða þannig.) 


Vandi KR-inga...

Ég minni aftur á Atla Eðvaldsson...

Hressandi anarkismi

Þegar ég er í Berlín fer ég hérumbil aldrei í vesturhluta borgarinnar, gömlu Vestur-Berlín. Þar er voða lítið að sækja. Kürfurstendamm er eins og hvaða verslunargata í evrópskri borg, með hávaða sínum og stressi. Austrið er öðruvísi. Unter den Linden og Friedrichstrasse, helstu göturnar í austurhlutanum eru furðulega rólegar. Þær eru enn ekki ofurseldar skruminu og látunum sem einkenna götur eins og Oxford Street og Champs Elysées. 

Best er þó að fara á Prenslauer Berg og í efri hluta hverfisins sem nefnist Mitte. Þar ríkir afar bóhemískt andrúmsloft og jú – maður hefur á tilfinningunni að lífið þar sé nokkuð langt til vinstri. En einkaframtakið blómstar þar ómengað. Þarna er fullt af litlum skrítnum stöðum. Verðlagið er fáránlega lágt fyrir Íslending. Og það sem best er, hvergi bólar á Starbuck´s, McDonald´s eða öðrum táknmyndum alþjóðavædds kapítalisma. Þessum fyrirtækjum yrði sjálfsagt ekki fagnað þarna – líklega yrði krotað á framhliðar þeirra og svo væru rúðurnar brotnar á nóttinni.

En það er allt í lagi. Þessir auðhringir geta athafnað sig í borgum eins og London þar sem eru varla til kaffihús lengur nema það séu Starbuck´s. Ég hef þá kenningu að maður geti farið milljón sinnum á Starbuck's án þess að starfsfólkið heilsi manni.

Ég sagði að Prenslauer Berg og Mitte væru til vinstri. En þetta er líka blandið anarkisma og það er hressandi. Honecker og félagar vildu flæma fólk burt úr þessum hverfum og láta það setjast að í nýjum íbúðablokkum. Nasistunum tókst heldur ekki alveg að kveða niður bóhemalífið í Mitte.

 


Lygari og tækifærissinni en ekki morðingi

Kurt Waldheim fylgdist með flutningi gyðinga frá borginni Saloniki í stríðinu. Í Saloniki hafði lengi verið til sannkallað fjölmenningarsamfélag. Þar lifðu í margar aldir nokkurn veginn í sátt og samlyndi kristnir menn, múslimar og gyðingar. Í tvö hundruð ár var þetta stærsta gyðingaborg í heimi. Gyðingarnir þar voru svokallaðir sefardim sem höfðu verið reknir frá Spáni á tíma Ferdinands og Isabellu. Ottómanarnir tyrknesku buðu gyðingunum að setjast að í ríki sínu, meðal annars til að sporna gegn áhrifum Grikkja. 

Útrýming gyðinganna frá Saloniki var eitt viðurstyggilegasta glæpaverkið í styrjöldinni. En það var ekki einstæður, afmarkaður atburður. Vaxandi þjóðernisstefna á Balkanskaga og í Tyrklandi útheimti miklar þjóðernishreinsanir. Gamlir nágrannar urðu óvinir þótt ættir þeirra hefðu kannski lifað saman í friði um aldir. Tyrkir voru reknir burt frá  Saloniki í kjölfar stríðs Grikkja og Tyrkja 1919-1922. Samt hafði borgin fóstrað marga frægustu syni Tyrkjaveldis, þar á meðal sjálfan Kemal Ataturk, svokallaðan föður Tyrkja. Fjöldamorð Tyrkja á Armenum eru af svipuðum toga.  

Á móti voru Grikkir reknir frá Tyrklandi, frá Istanbul þar sem þeir höfðu búið í mörg þúsund ár og frá Smyrnu, en þar voru íbúarnir reknir út í sjó og kveikt í borginni. Þessi skipti á íbúum eru í raun undirstaðan að nútíma Grikklandi og Tyrklandi – eins sorgleg og þau voru og eins mörg mannslíf og mikil menningarverðmæti fóru þar í súginn. Tími hinna heillandi samfélaga þar sem lifðu saman mörg þjóðarbrot var liðinn, við tók þjóðríkið með íbúum af einu samstæðu þjóðerni. Merkilegt nokk er að sumu leyti söknuður að veldi Ottómana! Þeir voru ekki alslæmir.

En ég ætlaði að tala um Waldheim. Um tíma var ég nokkuð fróður um stjórnmál í Austurríki. Fór þangað til að skrifa grein um Waldheim-málið þegar það náði hámæli árið 1987. Waldheim hafði komist upp með að vera framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, en þegar hann varð forseti Austurríkis gaus fortíð hans upp. Um leið voru Austurríkismenn neyddir til að horfa framan í sjálfa sig. Eftir stríðið höfðu þeir fengið stöðu fórnarlambs nasismans, þegar staðreyndin var sú að þeir voru ekki síður gerendur í glæpaverkunum en Þjóðverjar sjálfir.

Margir stórtækustu morðingjar Þriðja ríkisins komu frá Austurríki. Hitler sjálfur var þaðan. Austurríkismenn lágu aldrei á liði sínu í gyðingaofsóknum. Upp til hópa fögnuðu þeir líka þegar landið var innlimað í Stór-Þýskaland árið 1938.

Þetta var aldrei viðurkennt í Austurríki eftir stríðið. Þeir fengu áfram að vera land Mozarts, Vínarvalsa, Apfelstrudel og Sachertorten. Indæll staður.

Waldheim var vissulega ekki einn af morðingjunum. Það tókst aldrei að sanna það á hann. En hann hafði fylgst með glæpaverkunum og þagað. Þagað alla tíð. Hann var ein braver Soldat. Góður hermaður. Og tækifærissinni. Opportunist.

Ég tók viðtal við nasistaveiðarann Simon Wiesenthal eitt síðdegi þennan vetur. Fór í skrifstofu hans þar sem stóð einfaldlega utan á Dokumentationszenter. Wiesenthal var gagnrýndur fyrir að tala máli Waldheims. En það gerði hann í raun ekki. Hann sagði einfaldlega:

"Waldheim er lygari en ekki morðingi. Starf mitt er að elta morðingja, ekki lygara." 

Sem forseti Austurríkis var Waldheim persona non grata. Hann fékk ekki að heimsækja Bandaríkin og heldur ekki önnur Evrópuríki. Það var nokkuð kaldhæðnislegt í ljósi þess að fáum árum áður hafði maðurinn verið æðsti skriffinnurinn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.  

 


Fjölmiðlar eins og villt dýr

Tony Blair hélt merkilega ræðu í fyrradag. Þar fjallaði hann vítt og breitt um fjölmiðla á Bretlandi – mál sem hefur greinilega hvílt þungt á honum. Forsætisráðherrann fráfarandi líkti þeim við villt dýr. Sagði að fyrir þeim vakti ekki að skýra rétt frá heldur að skapa sem mestan usla. Láta finna fyrir sér.

Hann talaði sérstaklega um að mörkin milli frétta og túlkana á þeim yrðu sífellt óskýrari og nefndi dagblaðið The Independent í því sambandi.

Margt í ræðu Blairs er ábyggilega satt og rétt. Hann hefur augljóslega pælt mikið í þessu. Gæti kannski orðið fjölmiðlarýnir eftir að hann lætur af embætti. Margir fjölmiðlar eru fullir af vandlætingu yfir ræðunni. Ég sá að pólitískur ritstjóri The Sun sagði að hún væri "dapurleg".

Honum ferst.

En Blair ferst líka. Það voru hann og New Labour sem færðu pólitískan spuna upp í nýjar hæðir svo það er að verða heilt fag út af fyrir sig að afrugla það sem stjórnmálamenn segja. Það var líka Blair sem gerði samning við skrattann þegar hann fékk fjölmiðlakónginn Murdoch til að styðja sig. Og það var Blair sem fór í stríð við Írak á vægast sagt vafasömum forsendum.

En það breytir því ekki að stór hluti af bresku pressunni er sorp. Sjálfumglatt, skinheilagt og sjálfhverft sorp. Sjónvarpsstöð á borð við Sky (í eigu Murdochs) er það líka – mestanpart. En Bretar eiga líka suma af bestu fjölmiðlum í heimi. The Guardian. The Daily Telegraph. The Spectator. BBC.

Annars hef ég alltaf verið pínu veikur fyrir Tony Blair. Er það enn. Bretland hefur gengið í gegnum dæmalaust velmegunarskeið á tíma hans.

(Sem reyndar er flóknara en það sýnist. Í gær las ég grein þar sem var staðhæft að dulið atvinnuleysi í Bretlandi væri svo mikið að atvinnuleysistölur gætu jafnvel verið þrefalt hærri en þær eru opinberlega. Þetta skýrist meðal annars af mikilli fjölgun fólks á örorkubótum.)

En brátt getur Blair sagt eins og Richard Nixon í eitt skiptið sem hann hætti í stjórnmálum (en kom svo aftur):  

"You won´t have Nixon to kick around anymore, because, gentlemen, this is my last press conference." 


Körin

Ég hef stundum velt því fyrir mér að leggjast í kör. Þetta var mjög merk stofnun í gamla bændasamfélaginu. Fólk lagðist í bælið af einhverjum ótilgreindum ástæðum og fór ekki fram úr aftur.

Þetta er að minnsta kosti mjög umhverfisvænt.  


Schröder við Unter den Linden

Ég bauð fjölskyldunni að búa á dálítið fínu hóteli í Berlín þar sem við erum stödd núna. Eftir góðan kvöldverð á veitingahúsi við Unter den Linden – aspars og meiri aspars (það er asparstíminn núna) – gengum við aftur heim á hótelið. 

Í lobbíinu sat hópur fólks og ríkti mikil glaðværð, hlátrasköllin bárust um allan salinn. Þarna sat maður og saug vindil. Mér fannst hann kunnuglegur. Var kannski full nærgöngull – starði á hann. Spurði svo einn þjónanna til að vera viss.

Jú, þetta var Gerhard Schröder. 

 


Má rífa bæði Moggahúsin?

Í prinsíppinu er ekkert að því að rífa Morgunblaðshúsið í Kringlunni. Það eina sem er umhugsunarvert við það eru áform um að stækka hina forljótu Kringlu – hús sem er ágætt að innan en hrikalega ljótt að ytra byrðinu.

Víða í London sér maður að verið er að rífa hús sem eru ekki ýkja gömul, sumt af því stórhýsi – þetta eru byggingar frá tíma módernismans á árunum upp úr 1950 og steinsteypuþyngsla áranna eftir 1970. Þarna er verið að leiðrétta alvarleg skipulagsmistök. 

Við mættum alveg taka okkur þetta til eftirbreytni. Fyrst fjarlægja á nýja Moggahúsið, þá getur varla verið neitt tiltökumál að rífa líka gamla Moggahúsið – þetta sem gnæfir við endann á Austurstræti.

Einu sinni hafði þetta hús pólitískt tákngildi, en það hefur það varla lengur. Mogginn er heldur ekki lengur miðlægur í vitund þjóðarinnar – hann er til húsa í Hádegismóa sem enginn veit hvar er


Einkavæddar lestir og heilbrigðiskerfi

Lestirnar í ríki Blairs og Brown eru hörmulegar. Áðan var ég í lest þar sem loftræstikerfið lak vatni í stríðum straumum, fólkið varð blautt og líka ferðatöskurnar. Í lestarvagninum var afskiptasöm kona sem kvartaði sáran undan þessu. Hélt því fram að við myndum öll fá hermannaveiki. Talaði um dauðann í því sambandi og langa vist á gjörgæslu. Það var farið að fara um mann. 

Konan vildi helst að allir farþegarnir skrifuðu nöfn sín á lista. Við gætum þá reynt að sækja rétt okkar gagnvart lestarfyrirtækinu þegar við tækjum að deyja eitt af öðru.

Nú er ég á Stansted flugvelli á leið til Berlínar. Verð þar fram á laugardag og bíð eftir sjúkdómseinkennunum. 

Í lestinni las ég grein um bandaríska heilbrigðiskerfið. Ég segi ekki að ég hlakki til að sjá Sicko, myndina hans Michaels Moore, en það verður ábyggilega lærdómsríkt. 

Í myndinni kemur víst fram að NHS, breska heilbrigðiskerfið, sé eins og himnaríki miðað við það bandaríska. Þegar við vorum í London hélt ég eitt sinn að Kári væri orðinn alvarlega veikur, jafnvel með heilahimnubólgu. Ég hringdi í hjálparlínu NHS. Kona á hinum endanum yfirheyrði mig langa stund um hvers vegna ég væri að hringja og hvernig stæði á veru minni í Bretlandi. Svo sagðist hún myndu hringja aftur í mig og segja mér hvert ég ætti að fara með drenginn.

Hún hringdi aldrei.

Konan mín fór í apótek, var heldur óttaslegin að sjá, og sagði eiganda apóteksins frá raunum sínum. Þar var að vinna ungur maður. Það kom á daginn að hann var læknismenntaður, frá Úkraínu, en fékk ekki að starfa við lækningar í Bretlandi. Hann kom með okkur heim í íbúðina, úrskurðaði að allt væri í lagi með Kára.

Vildi ekki taka neina þóknun fyrir.

Í samanburði má geta þess að í Frakklandi eru reglur um að sá sem hringir í SOS-Médecins, símaþjónustu heilbrigðiskerfisins, skuli njóta læknisþjónustu innan klukkutíma. Þetta höfum við reynt í Frakklandi. Þar hafa bæði kona mín og sonur veikst á hótelherbergjum og læknar hafa komið að vörmu spori.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband