Hola á hæð yfir krakkgreni

Það eru nokkrar stéttir sem eru bráðnauðsynlegar til að samfélag geti virkað. Þar má til dæmis nefna kennara, hjúkrunarfólk, lækna, lögreglumenn. 

Meðal þeirra sem eru nokkurn veginn óþarfir eru fjölmiðlamenn, verðbréfasalar og auglýsingafólk.  

Í Lundúnum er staðan sú að þeir sem tilheyra fyrri flokkinum hafa ekki efni á að kaupa sér húsnæði í borginni.

Í einu blaði stóð að hjúkrunarfræðingur hefði í mesta lagi efni á að kaupa sér "holu á hæð fyrir ofan krakkgreni".

Þeir sem hafa efni á að kaupa íbúðirnar eru þeir sem þjóðfélagið getur vel verið án. Auglýsingafólkið, verðbréfasalarnir, fjölmiðlamennirnir.

Þetta er ákveðin þversögn. Og nú segja þeir að íbúð í Skuggahverfinu í Reykjavík eigi að kosta 230 milljónir. Það er hátt verð fyrir kuldalegt útsýnið yfir Kollafjörðinn og Esjuna. 


Stefnubreyting?

Á að vera nokkuð mál fyrir ríkisstjórnina að taka upp nýja afstöðu til Bandaríkjanna, Palestínumálsins, Íraks og alls þessa? Er ekki herinn farinn? Var ekki brottförin með þeim hætti að ekki er hægt að kalla það annað en dónaskap. Þurfum við að hanga lengur í rassinum á Bandaríkjamönnum? Eru ekki allir sammála um það nema örfáir íslenskir repúblikanar að Bush er hættulegur idjót?

Þeir einu sem fagna honum núorðið eru stóreinkennilegir ráðamenn í Austur Evrópu, menn á borð við Kaczynski bræðurna.

Varðandi Palestínumálið þá þarf lausn þess ekki að vera svo fólkin, líkt og hið hægrisinnaða tímarit Economist benti á í afar góðum leiðara um daginn.  Þá voru liðin fjörutíu ár frá lokum sex daga stríðsins 1967. Ísraelsmenn unnu þar frægan sigur, en hann var ekki til neins nema bölvunar. Öldungurinn Ben Gurion hafði rétt fyrir sér þegar hann flaug í þyrlu yfir herteknu svæðin nokkrum dögum eftir stríðið og sagði að þessu yrðu Ísraelar að skila aftur – annars myndi það éta ríkið að innan.

Draumurinn um Stór-Ísrael varð að raunveruleika í sex daga stríðinu. Þá náðu gyðingar undir sig biblíuslóðunum í Júdeu og Samaríu, það sem í daglegu tali kallast Vesturbakkinn. Þeir lögu líka undir sig Austur-Jerúsalem sem var byggð Palestínumönnum og hafa síðan verið í óða önn að innlima hana í ríkið.

Lausnin er fólgin í því að Ísraelar skili aftur herteknu svæðunum á Vesturbakkanum, leggi niður landnemabyggðirnar þar, og að Jerúsalem verði opin borg þar sem allar þjóðir og trúarbrögð hafa rétt. Á móti viðurkenna Palestínumenn tilvist Ísraelsríkis skilyrðislaust og falla frá kröfum um að palestínskir flóttamenn fái að snúa aftur. 


Misvægi í ríkisstjórninni

Það sem stuðningsmenn nýrrar ríkisstjórnar þurfa að hafa mestar áhyggjur af þessa dagana er hversu Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið lengi í ríkisstjórn en Samfylkingin stutt. Samfylkingarfólk er barnslega glatt að vera komið í ríkisstjórn en skilur kannski ekki að sjálfstæðismenn hafa ráðið hér lögum og lofum í sextán ár og telja að engin breyting verði þar á. Þeir eru satt að segja gegnsýrðir af valdhroka.

Þetta sést á viðbrögðum Einars Kr. Guðfinnssonar sem telur sjálfsagt að hann ráði því einn hvort hér séu veiddir hvalir – til þess síðan að urða þá á ruslahaugum einhvers staðar á Vesturlandi.

Sjálfstæðismönnum finnst líka fráleitt að nýr utanríkisráðherra vogi sér að skipta sér af málefnum Ísraels/Palestínu með öðrum hætti en flokknum þóknast. Hún má heldur ekki aðhafast neitt í ESB-málum. Hvað á Ingibjörg Sólrún þá að gera í utanríkisráðuneytinu?

Verður stjórnin kannski ekki langlíf? 


Stórslys við Laugaveg

Ég er tvístígandi í afstöðu minni til gamalla húsa sem stendur til að rífa í miðborg Reykjavíkur. Aðalspurningin er auðvitað hvað kemur í staðinn? Við höfum ekki getað svarað því af neinu viti. Á meðan er best að rífa sem minnst. Það er ekki hægt að afhenda verktökum sjálfdæmi um það sem er byggt í miðbænum.

Stórslys virðist vera í uppsiglingu við Laugaveg 33-35. Þar á að rífa nokkur hrörleg timburhús. En það sem á að byggja í staðinn er hreinn óskapnaður. Andlaust ferlíki sem stingur á æpandi hátt í stúf við götumyndina. Það er ekki hugsað um annað en að troða sem mestu byggingarmagni inn á reitinn.

Meðan staðan er þessi hlýtur maður að taka afstöðu með Torfusamtökunum

 


Rallhálfur Sarkó

Það er sjálfsagt gaman að vera Nicolas Sarkozy þessa dagana. Nýkjörinn forseti með mikinn þingmeirihluta. Nú tekur alvaran brátt við. Það er alveg ljóst að bæði stúdentar og verkalýðshreyfingin munu berjast hatrammri baráttu gegn hugmyndum hans um að endurskipuleggja franskt menntakerfi og atvinnulíf. Rektor Sorbonneháskóla hefur skorað á Sarkozy að vera tilbúinn til að kalla út herinn til að verja skólann ef stúdentarnir leggja hann undir sig eins og stundum áður.

Það er í raun bara tímaspursmál hvenær átökin byrja að brjótast út. Þangað til getur Sarkó reynt að njóta lífsins eins og á G8 fundinum þar sem hann kom rallhálfur og brosandi á blaðamannafund. 

http://www.youtube.com/watch?v=I4u3449L5VI 

Minnir dálítið á Bermudaskálina, ekki satt? Það var líka á hveitibrauðsdögum forsætisráðherrans Davíðs. 


Páll á villigötum

Páll Baldvin Baldvinsson – sem ég hef talið í hópi vina minna – skrifar dálk í Fréttablaðið. Hann er einkar óvinsamlegur í minn garð. Það sem verra er – þar er farið með hrein ósannindi. Það er ekki einleikið með þá á Fréttablaðinu.

Páll segir að ég hafi farið frá samningi þegar ég fór frá Bylgjunni yfir á Skjá einn. Og að hið sama hafi gerst þegar ég fór frá Skjá einum yfir á Stöð 2.

Nú er það svo að ég hætti á Bylgjunni í júlí 1998. Ég hóf fyrst að stjórna þáttum á Skjánum í apríl 1999. Þarna líða semsagt 8-9 mánuðir á milli! 

Vorið 2003 var samningur minn við Skjá einn ekki endurnýjaður. Það var að vilja eigenda stöðvarinnar. Síðasti þátturinn fór í loftið í maí það ár. Það var svo í október að ég hitti Sigurð G. Guðjónsson, forstjóra Stöðvar 2, af tilviljun niður á Austurvelli og hann bað mig að koma að ræða við sig. Þá var ég atvinnulaus.

Silfrið minnir mig að hafi farið í loftið á Stöð 2 í byrjun nóvember.

Svo er nú það. Hví ertu að þessu Palli? 

 


Atli?

Fyrir átta árum gerði glaðbeittur maður KR að Íslandsmeisturum með miklum yfirburðum. Hann byggði upp svo gott lið að það varð meistari í nokkur ár á eftir. Þetta er augljóslega sá þjálfari sem hefur hentað KR-ingum best.

Hvar er Atli Eðvaldsson?


Status symbol

Það er hægt að réttlæta allt. Í Guardian í dag er mikil grein um nýjasta stöðutáknið, einkaþotur auðmanna. Í blaðinu segir að peningamenn þurfi þessi farartæki til að verða ríkari og til að geta verið með fjölskyldum sínum. Þeir geti ekki staðið í að ferðast með almennu farþegaflugi eins og við smáborgararnir.

Samt er nú staðreynd að menn gátu orðið ofsalega ríkir á tíma þegar öll ferðalög voru með skipum og hestvögnum. Í dag höfum við internet og farsíma sem valda því að allir eru að verða af taugahrúgum vegna of mikilla samskipta.

Einkaþotum hefur fjölgað ofboðslega undanfarin ár. Þetta er nýjasta æðið meðal ríka fólksins. Á það hefur verið bent að þetta er ó-umhverfisvænasti ferðamáti sem til er. Sá sem fer í einkaþotu skilur eftir sig koltvísýringsútblástur sem er margfaldur á við venjulega flugfarþega.

Þess vegna er ekkert að marka þá sem nota einkaþotur þegar þeir tala um umhverfismál. Í þeirri umræðu dæma menn eins og George Clooney sig úr leik hvað sem þeir reyna.  


Grunsamlegir feðgar á ferð

Það er dálítið annað að ferðast með Kára þegar við erum einir en þegar mamma hans er með. Nú hef ég í tvö síðustu skipti þegar ég kem með hann á enskan flugvöll verið beðinn um að framvísa fæðingarvottorði barnsins. Ástæðan er auðvitað sú á við berum ekki sama eftirnafn. Þetta reka landamæraverðir augun í og fyllast grunsemdum um að ég sé glæpamaður að flytja börn nauðungarflutningum milli landa. Maður reynir að skýra út íslensku nafnareglurnar, en menn nenna varla að husta á svo langsóttar útskýringar. 

Drengurinn er að vísu nauðalíkur mér. Við höfum sloppið inn í landið í bæði skiptin. En þarf ég að fara að sækja um öðruvísi passa. Eða eigum við Íslendingar kannski að breyta nafnavenjum okkar? 


Nóg af mér

Skrifa þessa færslu á Keflavíkurflugvelli. Flugvélin er að fara á eftir. Eins og ég hef sagt verður verður þetta frekar stopult hérna á blogginu. Væri ágætt að eiga frí án fartölvu og farsíma. (Samt hef ég þetta dót meðerðis!) Til að gera það þarf maður nánast að læra að lifa upp á nýtt. En það er gott þegar það tekst.

Það er viðtal við mig í DV í morgun. Svo er annað viðtal við mig í Blaðinu á morgun. Svo held ég að sé komið nóg af mér í bili.  

Fór í göngutúr í morgun. Gekk yfir tún sem var gult af fíflum. Best að gefast sumrinu á vald.  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband